top of page

Um valdaójafnvægi og mátt samstöðunnar

Guðrún Schmidt, fræðslustjóri og sérfræðingur í menntateymi hjá Landvernd og íbúi á Egilsstöðum.


Áskoranir sem náttúruverndarfólk stendur frammi fyrir eru margvíslegar og má m.a. nefna þann aðstöðumun og það valdaójafnvægi sem almennt getur verið til staðar milli aðila. Á meðan margt  náttúruverndarfólk og félagasamtök vinna að stórum hluta í sjálfboðavinnu og/eða með takmörkuðu fjármagni þá eru framkvæmdaaðilar oft auðug fyrirtæki sem hafa fjölda fulltrúa að baki sér á fullum launum til að greiða götu fyrirtækisins. Með auglýsingum, margvíslegum grænþvotti og villandi framsetningu er svo sköpuð ákveðin upplýsingaóreiða sem gerir almenningi erfitt fyrir þegar kemur að því að greina hvað er rétt og hvað rangt. Mörg dæmi eru einnig til um það að réttarstaða fyrirtækja sé betri en umhverfisins eða almennings. Þá er þekkt víða um heim að rík og stór fyrirtæki geta haft áhrif á pólitískar ákvarðanir í þágu eigin hagsmuna og stefna þar með virkni lýðræðis í hættu (sjá Medici vicious cycle). 

 

Brotalamir í stjórnsýslu 

Félagasamtökin VÁ- félag um vernd fjarðar sem koma fram fyrir meirihluta íbúa Seyðisfjarðar gegn sjókvíaeldi í firðinum fagra, hafa m.a. upplifað gott dæmi um átök við veikburða og brotakennda stjórnsýslu. Því eins og stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar á sjókvíaeldi frá 2023 leiddi í ljós eru mjög alvarlegir annmarkar á sjókvíaeldi hérlendis. Engu að síður er haldið áfram og ekkert hlustað. Þrátt fyrir að eðlilegum og lögmætum vinnubrögðum hafi ekki verið fylgt eftir varðandi umsóknarferli Kaldvíkur um leyfi til sjókvíaeldis í Seyðisfirði senda MAST og UST frá sér tillögu að rekstrar- og starfsleyfi. Auk þess er óumdeilt að umhverfisáhrif af opnu sjókvíaeldi eru mikil og margvísleg, erfðablöndun vegna sleppifiska setur villta laxastofninn í hættu og mikil afföll og áhrif laxalúsar sýna fram á hreina dýraníð. Ekki einu sinni sú staða að um 75% íbúa Seyðisfjarðar, eru á móti sjókvíaeldi í firðinum sínum (skv. skoðanakönnun Gallup frá 2023) virðist breyta gang mála. Hvernig stendur á því að hagsmunir eins fyrirtækis skuli vera hafin yfir hagsmunum almennings og náttúrunnar?  

Nánar má lesa um athugasemdir Landverndar um sjókvíaeldi í Seyðisfirði á heimasíðu samtakanna. 

 

Samstaða 

Eitt af því mikilvægasta sem einstaklingar geta gert til þess að standa fyrir hagsmunum almennings, náttúrunnar og dýra er að mynda samstöðu og vinna í sameiningu að framgangi mála, t.d. innan frjálsra félagasamtaka. Hagsmunagæsla sumra fyrirtækja er svo öflug að mikil samstaða er eina vopnið. Hún hefur m.a. myndast meðal meirihluta Seyðfirðinga og einnig meðal stórs hluta þjóðarinnar gegn sjókvíaeldi í Seyðisfirði og gegn sjókvíaeldi almennt. Á meðan fyrirtæki vinna oft aðallega að eigin velgengni, framgangi og hagnaði þá eru félagasamtök, almenningur og einstaklingar að vinna samtímis að hagsmunum margra aðila. Dæmi um það eru hagsmunir náttúrunnar, komandi kynslóða, loftslagsmála, sjálfbærrar þróunar, dýraverndar, öryggis, réttlætis og almennings.

  

Að lokum 

Það sem virðist ógna íslenskri náttúru mest í dag er græðgi, skammsýni, grænþvottur og upplýsingaóreiða.  Þar getur sérstaklega tvennt hjálpað – fræðsla og samstaða. 

Náttúran er auðlind okkar allra sem ber að vernda eftir fremsta megni og sjá til þess að hún lúti ekki lægra haldi fyrir efnahagslegum hagsmunum hagnaðardrifinna fyrirtækja.   

Snowy Forest

Þoka er gefin út fyrsta fimmtudag í mánuði.


Þoka er sjálfstætt verkefni Þorgerðar Maríu
Þorbjarnardóttur og Fífu Jónsdóttur.


Ritstjórn: Þorgerður María
Hönnun og uppsetning: Fífa Jónsdóttir
Greinarnar sem birtast eru á ábyrgð höfunda.


Þoka er blað þar sem fólk getur sent inn skoðun um umhverfismál. Óski einhver þess að skrifa í bréfið getur sá hinn sami sent póst þess efnis á
greinar@thoka-blad.is

Við tökum við frjálsum framlögum!

Ef þig langar að styrkja prentið þá getur þú lagtinn á reikning Landverndar með skýringunni: Þoka

kt. 640971-0459

Rnr. 0301-26-009904

Styrkir verða notaðir í að prentameira og dreifa víðar

bottom of page