Pétur Heimisson, læknir, á sæti í Umhverfis- og framkvæmdaráði Múlaþings fyrir VG og situr í stjórn hreyfingarinnar.
Orðin sáttasemjari, sáttatillaga og sáttameðferð eru ásamt fleiri slíkum dæmi um það vægi sem sátt hefur í því að byggja og viðhalda SAMfélagi. Skipulagsstofnun áréttaði snemma mikilvægi þess að ná sátt um áformað laxeldi í Seyðisfirði. Forsvarsmenn laxeldisáformanna töluðu lengi vel um vilja sinn til að eldið yrði í sátt við nærsamfélagið. Æ minna hnýt ég um þann málflutning þeirra svo mögulega hefur sá vilji rjátlast af þeim, eða var hann kannski bara í nefjum þeirra eins og sagt er?
Samfélagsleg sátt
Sátt í nærsamfélagi skipulags áforma og ákvarðana kallast samfélagsleg sátt og er í eðli sínu hin sama og sáttin sem okkur hverju og einu er svo mikilvæg til vellíðunar. Þegar talað er um að einhverjum líði vel er það oft botnað með því að segja að viðkomandi sé “sátt(ur) í eigin skinni “. Það merkir í raun að vera sátt(ur) við hlutskipti sitt. Því heyrir það til góðra starfshátta skipulagsyfirvalda að vanda til þess á öllum stigum málsmeðferðar að upplýsa, fræða, eiga samráð við og taka tillit til þess nærsamfélags sem tiltekin áætluð framkvæmd eða atvinnuvegur snertir.
Andlegt ofbeldi?
Snemma lýstu 55% Seyðfirðinga því skriflega yfir að þeir væru andvígir öllum áformum um laxeldi í firðinum. Sveitarstjórn Múlaþings lét gera skoðanakönnun og reyndust 75% Seyðfirðinga andvíg áformum um laxeldið. Kaldvíkurmönnum hefur alls ekki tekist að auka sátt nærsamfélagsins við eldisáform sín. Að Múlaþing sýni fram á andstöðu 75% Seyðfirðinga við eldið en geri ekkert með það og að Kaldvík auglýsi störf í áformuðu laxeldi í Seyðisfirði áður en leyfi fyrir starfseminni er veitt finnst mér hreinn yfirgangur og jafngilda andlegu ofbeldi eins og ég skil það hugtak.
Sátt og heilsa samfélags
Eftir nær 40 ára starf sem heimilislæknir hef ég af því mikla reynslu hve svokölluð sátt er heilsueflandi og enn meiri af því hve djúpstæð og langvinn ósátt er heilsuspillandi. Í samskiptum fólks við lækni birtist slíkt í samfélagslegum einingum eins og fjölskyldum, íþróttafélögum, vinnustöðum o.s.frv. Þá upplifði ég nokkrum sinnum hvernig framkoma við suma andstæðinga Kárahnjúkavirkjunar kom illa við líðan þeirra til lengri tíma. Verði laxeldi leyft í Seyðisfirði þrátt fyrir hina miklu andstöðu nærsamfélagsins, þá tel ég það mikið áhyggjuefni með vísan í framangreint. Ég óttast að slíkt geti skaðað lýðheilsu nærsamfélagsins enda eru þær nánar systurnar Sátt og Heilsa og við viljum væntanlega öll halda þeim báðum sem lengst.