Magnús Guðmundsson, brottfluttur Seyðfirðingur og félagsmaður í VÁ-félagi um vernd fjarðar
Félagar í VÁ hafa með gildum rökum gagnrýnt ríkisstofnanir, vegna gagnaöflunar og vinnu við umsóknir um sjókvíaeldi, með von um skynsamlegri vinnubrögð og samvinnu milli stofnana. Ríkisendurskoðun gerir það líka í skýrslu sinni frá því í janúar 2023
“Stjórnsýsla og eftirlit með sjókvíaeldi hafa reynst veikburða og brotakennd og vart í stakk búin til að takast á við aukin umsvif greinarinnar á síðustu árum.”
Rangar ákvarðanir einnar stofnunar í upphafi úrvinnsluferils leiða af sér keðjuverkun og margföldun vitleysunnar þar til komið er að leyfisveitingu.
Talandi dæmi er eftirfarandi atburðarás varðandi ofanflóðamat í Selstaðavík í Seyðisfirði.
Við gerð Strandsvæðaskipulags Austfjarða lét Skipulagsstofnun ekki gera staðbundið ofanflóðamat í Seyðisfirði, eins og skylt er við skipulagsgerð, en setti skilyrði:
“Áður en leyfi til fiskeldis er veitt á reitnum þarf að liggja fyrir nánara mat á hættu á ofnflóðum og þannig mögulegri hættu á slysasleppingu vegna ofanflóða.”
Kaldvík greip tækifærið, stal skipulagsvaldinu, og fékk Veðurstofuna til að vinna staðbundið ofanflóðamat, út frá áætlaðri staðsetningu kvía. Matið fjallar bara um öryggi starfsmanna við kvíar, og það sagt tryggt. Nú liggur endanleg staðsetning kvíanna fyrir og þær eru sannarlega á ofanflóðasvæði. Ekkert áhættumat er til fyrir eldissvæðið allt vegna mögulegra slysasleppinga, eins og krafa er um. Ofanflóðamat Kaldvíkur er marklaust plagg.
Kaldvík hefur samt kynnt þetta sem fullgilt staðbundið ofanflóðamat fyrir eldissvæðið í Selstaðavík og starfsemina þar í heild. Í tillögu Matvælastofnunar(MAST) að rekstrarleyfi Kaldvíkur er vísað í þetta ofanflóðamat í ítarefni. Ekkert er minnst á ofanflóðahættu í starfsleyfistillögunni sjálfri.
Sem betur fer gerði Veðurstofan athugasemd við rekstrarleyfistillöguna þar sem segir m.a.:
“Staðbundið hættumat Veðurstofunnar er ekki mat á mögulegri hættu á slysasleppingum vegna ofanflóða eins og krafa er um í skipulagsákvæði SN2, Selstaðavík í Standsvæðaskipulagi Austfjarða en samkvæmt því þarf að liggja fyrir nánara mat á hættu á ofanflóðum og þannig mögulegri hættu á slysasleppingum vegna ofanflóða.”
Umhverfisstofnun(UST) fór sömu leið og MAST, þegar tillaga að starfsleyfi var birt. Staðbundna ofanflóðamatið fylgir tillögunni, en í henni er ekki orð um ofanflóðamál.
Það er þetta skeytingarleysi, að taka gagnrýnislaust við upplýsingum frá öðrum stofnunum, að ekki sé talað um hagsmunaaðilum, sem við höfum gagnrýnt.
Annars konar dæmi er þegar ein stofnun tekur ekkert tillit til skýrra ábendinga annarrar stofnunar. MAST og UST gáfu út rekstrar- og starfsleyfi á eldissvæði við Óshlíð í Ísafjarðardjúpi, sem er rammað inni af fleiri en einum hvítum ljósgeira vita. Samt voru stofnanirnar með áhættumat siglinga, sem sagði að sjókvíaeldi væri ómögulegt á svæðinu. Að lokum ógilti Úrskurðarnefnd umhverfis og auðlidamála(ÚUA) leyfin eftir að þau voru kærð.
Aftur er upphafið hjá Strandsvæðaskipulaginu. Óshlíðarsvæðið er skilgreint þar sem nýtingarsvæði, þó Skipulagsstofnun fengi sannarlega ábendingar um að það væri ómögulegt. Það hefur hins vegar kostað fjölda manns ómælda vinnu og fúlgur fjár að fá leiðréttingu á ákvörðun, sem allir sáu að var röng, nema þeir sem héldu um stýrið.
Í skýrslu Ríkisendurskoðunar er Skipulagsstofnun hvött til að hafa forgöngu um að þær stofnanir, sem koma að leyfisveitingaferli sjókvíaeldis, styrki samráði og samvinnu frá upphafi ferils til enda, í samvinnu við viðkomandi fagráðuneyti. Ekki er vanþörf á því miðað við ofangreint, því nú tveim árum síðar hefur ekkert gerst.
Nú eru fyrirheit um ferska vinda breytinga á Alþingi og stjórnkerfinu öllu. Vonandi breytist eitthvað til batnaðar.