top of page
Search

Hlutverk ungs fólks í skapandi lausnum

Borghildur Gunnarsdóttir, sérfræðingur í menntateymi Landverndar


Lífheimurinn hefur lengi verið listamönnum ríkulegur innblástur og mörg þeirra verða jafnvel eins konar aðgerðarsinnar í umhverfismálum með því að nota eigin verk sem vettvang til að vekja athygli á ýmsum málefnum.


List í öllum formum er nauðsynlegt hráefni þegar kemur að því að greina áskoranir samfélagsins og leita fjölbreyttra leiða til lausna. Listin á það til að vera einum of hreinn og vel pússaður spegill framan í okkur á það líf sem við höfum skapað sem mannkyn á jörðinni. Hún fær okkur oft á tíðum til að íhuga eigin áhrif sem einstaklinga í samfélagi og jafnvel hvetja til aðgerða.


Rannsóknir sýna mikinn ávinning af listsköpun með umhverfismál í huga sem getur haft töluverð áhrif á bæði listamanninn sjálfan sem og áhorfendur. Hún getur jafnvel vakið dýpri skilning á flóknum vandamálum en vísindagreinar eða hefðbundin fræðsla eiga kost á.


Það er sérstaklega mikilvægt að leyfa börnum og ungmennum að njóta góðs af slíkri vinnu. Menntaverkefni FEE (Foundation of Environmental Education) sem hýst eru af Landvernd, Grænfáninn og Umhverfisfréttafólk, byggja að miklu leyti á skapandi vinnu með málefni umhverfisins.


Umhverfisfréttafólk sérstaklega en þar fá nemendur tækifæri til að takast á við vísindaleg hugtök á áþreifanlegan og persónulegan hátt. Verkefnið er fyrir nemendur grunn- og framhaldsskóla á aldrinum 12-25 ára en þar velja þátttakendur málefni innan umhverfismála, greina það og vinna út frá því afurð. Sú afurð getur til dæmis verið ljósmynd, grein, vara, frétt, ljóð, hlaðvarp eða síða á samfélagsmiðli.

Markmið verkefnisins er að efla þekkingu ungmennanna, gagnrýna hugsun, samkennd, að valdefla þau og veita tól og tæki til að takast á við vandamál framtíðar.


Í Umhverfisfréttafólki vinna nemendur oft saman í hópum og skapar það samhug og samfélagskennd og vinnur gegn einstaklingshyggju. Verkefnavinnan eykur meðvitund og tengingu við náttúruna. Hún dýpkar skilning og dregur úr loftslagskvíða og -hræðslu og gerir nemendur líklegri til að stunda umhverfisvænan lífstíl í framtíðinni.


Unga fólkið okkar er eiturklárt, hæft og viljugt enda finna þátttakendur í verkefninu oft einstakar leiðir til að takast á við umhverfismál. Áskoranir okkar kalla á aukna græna hæfni og meðvitund borgaranna og við í menntateymi Landverndar hvetjum alla sem geta til að sækja um þátttöku í Umhverfisfréttafólki. Skilafrestur verkefna er 2. apríl og enn er ekki of seint að bætast í hópinn. Verkefnið er ekki bundið við skóla svo ef þú kæri lesandi ert yngri en 25 ára þá er ekkert sem stoppar þig. Nýtt tímabil í verkefninu hefst svo í haust og við hlökkum til að sjá fersk andlit bætast í hóp þeirra sem nýta sköpun í baráttunni við loftslagsvandann.


Frekari upplýsingar um Umhverfisfréttafólk má finna á graenfaninn.is.

 
 
Snowy Forest

Stefnt er að því að Þoka verði gefin út fyrsta fimmtudag í mánuði.


Þoka er sjálfstætt verkefni Þorgerðar Maríu
Þorbjarnardóttur og Fífu Jónsdóttur.


Ritstjórn: Þorgerður María
Hönnun og uppsetning: Fífa Jónsdóttir
Greinarnar sem birtast eru á ábyrgð höfunda.


Þoka er blað þar sem fólk getur sent inn skoðun um umhverfismál. Óski einhver þess að skrifa í bréfið getur sá hinn sami sent póst þess efnis á
greinar@thoka-blad.is

Við tökum við frjálsum framlögum!

Ef þig langar að styrkja prentið þá getur þú lagtinn á reikning Þorgerðar Maríu með skýringunni: Þoka

kt. 2704952659

Rnr. 0305-26-012704

Styrkir verða notaðir í að prentameira og dreifa víðar

bottom of page