top of page
Search

Endurunnar ástarjátningar

Hlynur Steinsson, líffræðingur


Í miðbæ Reykjavíkur er að finna samfélag stara sem hefur einsett sér að skrásetja öll hljóð borgarinnar. Þetta borgarsamfélag er kannski nokkuð óvenjulegt vegna þess að náttúruleg heimkynni stara er aðallega að finna í gamalgrónu skóglendi og klettum þar sem þeir verpa í holur og sprungur. Stararnir í Reykjavík hafa þó ekki miklar mætur á orðinu “náttúrulegt” og fara einfaldlega þangað sem þeim sýnist. Í rauninni er fátt náttúrlegra en aðlögunarhæfni og stararnir hafa vissulega aðlagast lífinu í borgarlandslaginu og fundið þar nýjar lífsleiðir.


Starar eru félagslyndir fuglar og lifa saman í stórum samfélögum sem halda hópinn. Innan borgarinnar hefur einn slíkur hópur lagt undir sig nokkrar þaksperrur við Tjörnina. Þessi hópur sefur og spjallar saman í undir súð við Tjörnina og flýgur um eins og lítið svart ský um borgina í leit að hljóðum.


Starar eru eftirhermusöngvarar. Þetta þýðir að ólíkt öðrum fuglum þá hafa starar sem tegund ekki bara eitt afmarkað lag sem allir einstaklingar tegundarinnar syngja. Allar lóur syngja sama dirrindí en lög stara eru eins mismunandi og þeir eru margir. Eins og fljúgandi hljóðnemar soga starar í sig nágrenni sitt og semja sína söngva út frá því. 


Sennilega er söngur staranna sá sorglegasti af öllum söngvum íslenskra fugla. Lög þeirra eru aldrei frumsamin heldur eru þau bara bútasaumur úr lögum annara fugla. Endurunnar ástarjátningar. Mögulega hefur það einhvern tímann skeð að lóa hefur orðið ákaflega ástfangin af stara sem söng fallega útgáfu af lóusöng.


Á hverjum morgni fer starahópurinn við Tjörnina á flakk um borgina. Þegar stararnir heyra eitthvað merkilegt þá staldra þeir við og leggja við hlustir. Inni í höfðinu á þeim kviknar á lífrænu hljóðupptökutæki sem er samsett úr taugafrumum og skynfærum. Hljóðnemar og segulbandsspólur úr holdi og blóði. Þrýst er á REC takkann, hljóðið er tekið upp og varðveitt. Skrásett. Síðan þegar tekur að dimma, þá fljúga stararnir heim í náttstaðinn sinn við Tjörnina, setjast þar upp undir súð og flytja öll merkilegustu hljóð dagsins. 


Í gegnum fjölda kynslóða og þúsundir dagsferða um Reykjavíkurborg hafa stararnir safnað milljónum hljóða. Undir þakskegginu á Tjarnarskóla er að finna Hljóðbókasafn á lifandi formi. Þar getur verið gott að staldra við og hlusta á nokkur af þeim verkum sem eru í eigu Hljóðbókasafnsins. Verkin eru jafnan flutt mörg í einni biðu og því þarf að hafa ágætis einbeitingu við þess að greiða úr hljóðflækjunni. Á góðum degi tekst oft að bera kennsl á eitthvert hljóðverkið og jafnvel höfund. Margt af því sem stararnir syngja hljómar kunnuglega en flest er furðulegt og brenglað.


Einn stari flytur sannfærandi útgáfu af sírenu í sjúkrabíl. Sírenuvælið hækkar smátt og smátt, líkt og sjúkrabíllinn nálgist sífellt. Annar stari svarar fyrir sig með mávahlátri sem fangar athygli tveggja hettumáva í nágrenninu. Mávahláturinn endist þó aðeins í stutta stund og er innrammaður með takftöstum flautukafla í hárri tónhæð með hröðum endurtekningum. Í bland heyrast holir smellir. Eitthvað sem starinn hefur heyrt frá reiðhjóli mögulega? Þriðji starinn segir frá lóusöng sem hann fann nýlega. Mikilvæg skrásetning á komu vorboðans. Lóusöngurinn er þó bara hálfur og hljómar eins og einhver hafi gripið fram í fyrir lóunni eða þá kannski að starinn muni ekki allan söng lóunnar.


Stararnir herma líka eftir hver eftir öðrum. Sum hljóðanna á Hljóðbókasafninu eru þannig geymd í tvíriti eða þríriti. Önnur hljóð hafa verið endurrituð og endurflutt svo oft að það er erfitt að átta sig á því hvað hljóðið var upphaflega. Eins og ljósrit af ljósriti af ljósriti sem tapar smám saman skerpu og verður að torræðu suði. Flokkunarfræðilega þá eru starar fuglar en tónfræðilega þá gætu þeir talist til jórturdýra. Þeir jórtra á hverju hljóði og flytja það oft mörg þúsund sinnum, alveg þar til hljóðið hefur glatað öllu samhengi við hinn upprunalega flytjanda. 


Á Hljóðbókasafninu á Tjörninni má finna eitt fullkomnasta safn landsins af mállýskum skógarþrasta. 


Skógarþrestir hafa allt aðra söngmenningu heldur en starar. Þrestir hafa vanafast lagaval sem byggir á sameiginlegri og mjög afmarkaðri arfleifð margra kynslóða skógarþrasta. Þeir hafa mjög áberandi og einkennandi mállýskur; þeir syngja mismunandi lög í mismunandi hverfum Höfuðborgarsvæðisins. Þeir virðast lítið fara út fyrir sitt mállýskuhverfi og halda sig mestmegnis þar þangað til þeir fara suður á bóginn á haustin.


Stararnir ferðast mun meira um borgina og flakka á milli mállýskuhverfa þrastanna. Með glöggu hátterni þjóðfræðinga hafa þeir vandlega skrásett og tekið upp söng skógarþrasta. Upptökur af þessum viðtölum sínum færa þeir síðan heim í Hljóðbókasafnið við Tjörnina og flytja fyrir sig og sína. Mállýskurnar, sem eru um 30 talsins á öllu höfuðborgarsvæðinu, má margar heyra þarna á Tjörninni þar sem þeim hefur verið safnað í sarp staranna. Þarna má heyra trillandi þjóðsöng Laugdælinga, hina hreintónuðu söngsveiflu miðbæjarþrasta og hinar ýmsu skógarþrasta-þjóðlagastefnur Seltjarnarness. 


Fiðraðir spekingarnir velta fyrir sér framburðareinkennum og fallbeygingum skógarþrasta og spígspora djúpt hugsi fram og til baka á hvítum dritsyllunum. Þetta mikla menningarsetur, þessi Stofnun Árna Magnússonar í skógarþrastafræðum, er þó ekki mikils metin þarna uppi undir súð við Tjörnina. Engin mikilvæg búsvæði stara hafa verið skilgreind á Íslandi líkt og gert hefur verið til dæmis fyrir lunda og haferni. Starar búa flestir í þéttbýli og manngert umhverfi telst ekki til náttúru. Þó svo að hér hafi kannski einu sinni verið náttúra þá var henni úthýst þegar hér voru reist hús og teppalagt með malbiki. 


Það væru mistök að halda því fram að það sem við köllum náttúra sé eitthvað sem byrjar og endar við borgarmörkin. Eins og þetta hafi eitthvað með deiliskipulag að gera. Þéttasta varp skógarþrasta sem fundist hefur í heiminum er hér í Reykjavík, í Fossvogskirkjugarði. Sömuleiðis er hvergi að finna fleiri förufálka en innan um hina risavöxnu, steinsteyptu skýjakljúfa New York borgar. Líklega er kominn tími á að Hljóðbókasafn staranna hljóti sína verðskulduðu athygli og verndun hjá Náttúrufræðistofnun. Eða þá að Hljóðbókasafninu við Tjörnina verði komið undir væng Minjastofnunar líkt og öðrum menningarminjum landsins.


Það væri forvitnilegt að vita hvað hljóðsafn staranna nær langt aftur í tímann. Starar verða að meðaltali aðeins um þriggja ára gamlir og kannski eru elstu upptökur Hljóðbókasafnsins því ekki eldri en svo. En það er ekkert fjarstæðukennt að einhver hljóð, sem hafa þótt sérstaklega merkileg eða áhrifarík i eyrum staranna, hafi verið látin ganga milli kynslóða. Hljóð sem þeir telja virkilega verðmæt og þarf að varðveita líkt og aðrar menningarminjar.


Ef þig langar til þess að heimsækja þetta Hljóðbókasafn við Tjörnina þá skaltu vita að opnunartími þess er nokkuð óreglulegur.Starar hafa, líkt og flestir aðrir fuglar, furðulega tilhneigingu til þess að syngja í ljósaskiptunum, þegar sólin rís að morgni og þegar hún sest á kvöldin. Það er yfirleitt við þessi ákveðnu birtuskilyrði sem Hljóðbókasafnið opnar. Það er samt alls ekki víst að þú fáir neitt að segja um hvaða safnkosti þú fáir að heyra, slíkt er algjörlega ákveðið af störunum.


Ég hef sjálfur gert nokkrar tilraunir til að leggja inn hljóðbrot í Hljóðbókasafnið í von um að stararnir taki við hljóðinu og varðveiti það. Þegar ég kem auga á starahóp spígsporandi um á beit á hinum eða þessum grasblettinum í borginni þá hef ég stundum staldrað við og nálgast hópinn. Þá hef ég haldið hæfilegri fjarlægð frá hópnum og borið fram mitt tiltekna hljóðgagn sem ég vonast til þess að stararnir taki við. Ég veit ekki hvort stararnir séu beint að hlusta svo að ég endurtek tillöguna nokkrum sinnum. Hlynur. Hlynur. Hlynur. Hlynur.


Ég viðurkenni það fúslega að það sé frekar hégómafullt að vonast til þess að stararnir leggi nafnið mitt á minnið. En samt finnst mér þetta einhvern veginn eina hljóðið sem kemur til greina að ég bjóði fram sem mögulegan safnkost í hljóðbókasafnið.Ég endurtek hljóðið mitt í sífellu á meðan stararnir eru á beit í grasinu. Þangað til fuglarnir flögra burt, í leit að bragðbetri ormum eða bara til þess að forðast þennan óþægilega náunga sem er sífellt að segja nafnið sitt við hliðina á þeim.


Síðan hef ég heimsótt Hljóðbókasafnið við Tjörnina reglulega og hlustað á flutning kvöldsins í von um að heyra hljóðið mitt eða einhverja hljóðblandaða útgáfu af því. Ég sest niður á bekk við húsið og hlusta þolinmóður í von um að einhver starinn hafi metið þetta hljóð nógu merkilegt. En þeim virðist vera skítsama um tillögur mínar. Þeir hafa sínar eigin hugmyndir um sambúð manns og náttúru.


 
 
Snowy Forest

Stefnt er að því að Þoka verði gefin út fyrsta fimmtudag í mánuði.


Þoka er sjálfstætt verkefni Þorgerðar Maríu
Þorbjarnardóttur og Fífu Jónsdóttur.


Ritstjórn: Þorgerður María
Hönnun og uppsetning: Fífa Jónsdóttir
Greinarnar sem birtast eru á ábyrgð höfunda.


Þoka er blað þar sem fólk getur sent inn skoðun um umhverfismál. Óski einhver þess að skrifa í bréfið getur sá hinn sami sent póst þess efnis á
greinar@thoka-blad.is

Við tökum við frjálsum framlögum!

Ef þig langar að styrkja prentið þá getur þú lagtinn á reikning Þorgerðar Maríu með skýringunni: Þoka

kt. 2704952659

Rnr. 0305-26-012704

Styrkir verða notaðir í að prentameira og dreifa víðar

bottom of page