top of page
Search

Breiðþotur; náttúran og stórslysin

Tómas Ævar Ólafsson - rithöfundur

Breiðþotur var tilraun til að skrifa goðsögu sagða frá sjónarhorni nútímamanna. Sögulausum nýfrjálshyggjuverum sem hafa gleymt guðum sínum og goðum en á sama tíma tekist að reita þau til reiði með því að svindla á náttúruöflunum. Dómur og hefnd goðanna birtist síðan í þeirri loftslagsvá sem steðjar að heimsbyggðinni í bókinni. Goð og guðir, þau sem ekki eru alveg almáttug, eru gjarnan eins konar útsendarar náttúruaflanna. Í kínverskri og japanskri þjóðtrú geta, til dæmis, mörg goð sinnt erindum stakra náttúrufyrirbæra. Vindurinn á sér mörg forsvarsgoð, hafið líka og svo framvegis. Á bak við blaðsíður Breiðþota er hugmyndin sú að þessi forsvarsgoð afhjúpi sig sem hin svokölluðu Heimsendasamtök og valdi stórum gagnaleka á veraldarvefnum og hóti öðrum stærri innan tíu ára ef koltvíoxíð í andrúmslofti fer ekki niður fyrir iðnbyltingarstaðalinn gamalkunna. Manneskjan í verkinu stendur því frammi fyrir þeim afarkostum að taka til hendinni í loftslagsmálum eða þurfa horfast í augu við leka á öllum leyndarmálum internetsins; öll einkaskilaboð, öll internetsaga einstaklinga, verslunarþræðir fyrirtækja, allur pakkinn.

           

Sagan fjallar í grunninn um vináttu fjögurra persóna og hef ég gjarnan lýst verkinu sem pólitískri uppvaxtarsögu þar sem lesandi fær að fylgja persónunum frá unga aldri fram á fullorðinsár með loftslagshamfarir og skautunarmenningu í bakgrunninum. Ástæða þess að ég læt svo langan tíma líða í bókinni var sú að mig langaði að skoða viðbrögð alþjóðasamfélagsins við aðkallandi ógn. Lausnirnar við loftslagsvánni í bókinni, koltvíoxíðförgun og sólarspeglun með brennisteinsögnum, endurspegla tilhneigingu mannsins til að stökkva sífellt á einfaldar lausnir við flóknum vandamálum sem enda síðan á því að flækja málin enn frekar sem og festa gallaðar lausnir í sessi; til dæmis er ekki þörf á frekari sólarspeglun í lok verks en áhrif speglunariðnaðarins í stjórnmálum eru orðin of mikil svo spegluninni er haldið áfram af hagsmunaástæðum.

           

Þessi viðbrögð samfélagsins í bókinni byggja einnig á trúarlegum hugmyndum. Eftir stóra gagnalekann, sem er látinn gerast í kringum árið 2000, fær manneskjan raunverulegt tækifæri til að bregðast við loftslagsbreytingum með afgerandi hætti. En sama hvernig ég reyndi að finna lausn á málum í þessari einkennilegu hugsanatilraun rataði ég yfirleitt ofan í hyl bölsýnarinnar – rambaði á Fallið úr paradís; hvernig manneskjan er dæmd til að endurtaka stöðugt mistök sín – Fallinu til stuðnings eru óvenjulegar persónur látnar dúkka upp hér og þar í verkinu sem minna lesanda á hversu erfitt er að horfa aftur um farinn veg; að rifja upp fortíðina þýðir að við þurfum að horfast í augu við hana og því víðari sem sýn okkar yfir sögusvið fortíðar verður því sorglegra og merkingarsnauðara verður þetta stórslys sem mannkynssagan er. En nálægt lokum bókar er gert lítið úr þessari fortíðarmynd þegar önnur óvenjuleg persóna minnist á hugleysi okkar gagnvart komandi hamförum og stórslysum framtíðarinnar.

           

Hugmyndin er sú að við erum enn að falla úr paradís og við sjáum fyrir neðan okkur hvað nálgast. Við vitum alveg hvað er að fara að gerast. Á sama tíma voru það líka við sem stálum eldinum frá guðunum; við sem svindluðum á kolefnishringrásinni. Við berum því á eldinum ábyrgð. Við erum enn að falla.

 
 
Snowy Forest

Stefnt er að því að Þoka verði gefin út fyrsta fimmtudag í mánuði.


Þoka er sjálfstætt verkefni Þorgerðar Maríu
Þorbjarnardóttur og Fífu Jónsdóttur.


Ritstjórn: Þorgerður María
Hönnun og uppsetning: Fífa Jónsdóttir
Greinarnar sem birtast eru á ábyrgð höfunda.


Þoka er blað þar sem fólk getur sent inn skoðun um umhverfismál. Óski einhver þess að skrifa í bréfið getur sá hinn sami sent póst þess efnis á
greinar@thoka-blad.is

Við tökum við frjálsum framlögum!

Ef þig langar að styrkja prentið þá getur þú lagtinn á reikning Þorgerðar Maríu með skýringunni: Þoka

kt. 2704952659

Rnr. 0305-26-012704

Styrkir verða notaðir í að prentameira og dreifa víðar

bottom of page