Benedikta Guðrún Svavarsdóttir, formaður VÁ, Félags um verndun fjarðar
Það eru sannarlega stórtíðindi að 13 þúsund manns hafi skráð sig á undirskriftalista gegn sjókvíaeldi í Seyðisfirði. Þar er biðlað til ráðamanna að grípa í bremsuna og sýna í verki að eitthvað sé að marka kosningarloforðin.
Við þekkjum öll þann leik sem fjársterk fyrirtæki eins og Kaldvík spila þegar komast þarf yfir auðlindir þjóðarinnar. Stjórnvöld kikna í hnjánum yfir fagurgalanum og skeyta engu um það tjón sem þessi frekja veldur annarri atvinnuuppbyggingu, hvað þá náttúru landsins. Af hverju rembist ríkið við að færa fyrirtæki á silfurfati auðlind sem metin er á allt að tíu milljarða króna? Ríkið veit að þetta er þvert á vilja íbúa og það veit líka að ágallarnir í ferlinu eru alvarlegir. Hverju þarf að breyta til þess að þess að kjörnir fulltrúar vinni fyrir fólkið í landinu en ekki sérhagsmuni? Hvað þarf að gerast til þess að íbúar þurfi ekki að leggja á sig gríðarlega vinnu til að sporna við umhverfisslysum?
Er lýðræði á Íslandi?
Fyrir fjórum árum var ljóst að meirihluti íbúa Seyðisfjarðar var andvígur áformunum og síðan höfum við hjá félaginu VÁ! barist fyrir vernd fjarðarins. Engin lögformleg leið hefur verið fær til að að tryggja íbúalýðræði í málinu.
Við höfum rýnt öll gögn og verið í samtali við allar stofnanir sem hafa með málaflokkinn að gera. Það hefur verið eins og að kreista vatn úr steini að fá t.d. endanleg hnit á eldissvæðum og eins upplýsingar um þann sértæka búnað sem fyrirtækið segist hafa hannað til þess að allt verði sko í himnalagi.
Öfgahópur
Öll rýnin sýnir svart á hvítu að eldissvæðin komast ekki fyrir í Seyðisfirði. Fyrirtækið hefur reynt að þagga niður þá umræðu með loforðum um nýjar tæknilausnir og samtímis hafa stofnanir einblínt á þröngt valdsvið sitt og komist að meingallaðri niðurstöðu.
Fjölmiðlar hafa ekki sinnt yfirlýstri ást sinni á lýðræðinu og aðrir gert lítið úr þessum baráttuhópi og jafnvel leyft sér að telja málið of flókið fyrir gáfnafar hans.
Það sem hefur gert það mögulegt fyrir fjárhagslega veik félagssamtök að halda úti þessari baráttu er sú mikla samstaða sem ríkir og hve margir hafa gefið vinnu sína og miðlað af sérþekkingu sinni.
Það er lýjandi þegar réttlát barátta er er kölluð andóf eða öfgar. Það er sú orðræða sem fyrirtækið setur í gang og því miður hefur meirihluti Múlaþings tekið undir hana í stað þess að hlusta á íbúa og virða niðurstöður eigin skoðanakönnunar.
Við sameiningu undir merkjum Múlaþings var því lofað að hver kjarni myndi blómstra, við sjáum hve mikið var að marka þau fyrirheit. Við teljum það siðferðilega rangt af Kaldvík að ráða í störf á staðnum án þess að leyfin séu í höfn og reyna þannig að kljúfa samstöðuna. Hvorki meirihluti sveitarstjórnar Múlaþings né aðrir ráðamenn virðast sjá neitt athugavert við það.
Þegar öllu er á botninn er hvolft má spyrja sig hvar öfgarnar í rauninni liggja.
Staðan í dag
Nú liggja fyrir yfir 200 umsagnir við tillögu MAST um leyfi í Seyðisfirði.
Umsögn Veðurstofunnar gefur tilefni til að trúa því að ennþá sé margt órannsakað. Rýni á þessum gögnum og fleirum sem hafa borist er komin á fullt og samkvæmt nýjustu fréttum fékk lögfræðingur VÁ gæsahúð við lesturinn, svínaríið blasir við.
Það er ljóst að ferlið síðustu fjögur ár eru þjóðfélaginu okkar ekki til sóma en við ætlum samt að leyfa okkur að vera bjartsýn!